Fræðsla um umhverfismál fer fram í gegnum daglegt starf í leikskólanum hún er hluti af okkar daglega lífi og brýnt er fyrir starfsfólki að hafa orð á og útskýra fyrir börnunum hvers vegna við þurfum að gæta að umhverfi okkar. Hlutverk hins fullorðan hlýtur þó alltaf að vera fyrst og fremst góð fyrirmynd.
Vatn
Brýnt fer fyrir börnum og fullorðnum að fara vel með þessa mikilvægu auðlind okkar. Við látum t.d. vatn ekki renna að óþörfu og skrúfum niður í ofnum þegar hlýtt er til að spara heita vatnið.
Við ræðum gildi vatnsins fyrir allt líf og leikum okkur með það t.d. með því að gera tilraunir.
Skoðuðum hvort tekur meira pláss, vatn eða snjór. Til þess fyllum við skál með snjó og fylgjumst með hvernig hann verður að vatni þegar hann bráðnar og minnkar um leið ummál sitt.
Við notuðum afskorinn blóm og fylgjumst með hvernig blómin drekka vatnið.
Frystum vatn og fylgjumst með þegar klakinn bráðnar, skoðum klakann á drullupollunum, þvoum þvott og hengjum hann til þerris, veltum fyrir okkur af hverju þvotturinn þornar.
Af hverju koma ánamaðkar upp úr moldinni þegar rignir.
Við veltum fyrir okkur hringrás vatnsins, ræðum um til hvers vatnið er notað.
Rusl
Hugsum áður en við hendum. Það sem sumum finnst rusl geta kannski aðrir notað. Oft koma börnin með hugmyndir að því hvernig við getum notað hlutina t.d. gamlir pottar og balar eru fínir í sandkassann.
Þegar við týnum rusl í garðinum finnum við oft ótrúlegustu hluti sem gaman getur verið að leika með áður en það er flokkað og það má sannarlega nota ýmislegt sem til fellur t.d. umbúðir úr eldhúsinu í leik og skapandi starf.
Börnin á eldri deild fara í heimsókn í Sorpu þar sem þau fá fræðslu um hvað verður af því sem við erum að flokka og farið er í gönguferðir í nálæga endurvinnslustöð.
Átthagar
Steinahlíð hefur yfir að ráða stórum og fallegum garði sem bíður upp á marga möguleika. Reglulega er farið í skoðunarferðir um garðinn þá höfum við t.d. með okkur spegla, stækkunargler, poka til að tína í rusl. Yfir sumartímann er skemmtilegt að skoða smádýr eins og snigla, orma, flugur og köngulær. Stundum höfum við með okkur ílát og skoðum dýrin og gróður betur í víðsjá þegar inn er komið.
Börnunum er skipt í hópa eftir aldri og á hver hópur sitt svæði í garðinum þar sem tækifæri gefst til að fylgjast með breytingum náttúrunnar eftir árstíðum. Sum börnin hafa t.d. eignað sér sitt tré eða stein á sínu svæði.
Ræktun er stór þáttur í okkar daglega lífi frá því snemma á vorin og fram eftir hausti. Sáð er fyrir grænmeti og blómum, settar niður kartölfur og tré gróðursett. Fylgst er með vexti og hlúð að gróðri og afraksturinn nýttur.
Við gerum náttúrutilraunir t.d. ormatilraun þar sem við getum fylgst með hvernig ánamaðkar blanda saman sandi, mold og laufi. Við fylgjumst með hvernig lífrænn úrgangur verður að mold, skoðum með hvaða úrgangur verður að mold og hvað rotnar ekki. Þessar tilraunir gerum við bæði úti og inni. En fyrst og fremst leggjum við áherslu á að njóta þess að vera úti og fá að hreyfa okkur í náttúrulegu umhverfi, skoða,spá og spekúlera á eigin forsendum.
Orka
Fylgst er með orkunotkun í skólanum og á hverjum degi fær eitt af elstu börnunum að fara með starfsmanni og lesa á heitavatnsmæli. Tölurnar eru skráðar og notkun reiknuð út hvað notað er frá degi til dags. Hitastigið er úti er líka mælt samhengið skoðað.
Einn starfsmaður hefur það verkefni að fylgjast með rafmagnsnotkun og börnunum er sýnt (á einfölu súluriti) hvenær við höfum notað mikið og hvenær lítið.
Í umræðunni um orku hefur umfjöllunarefnið oft snúist um mat og hreyfingu enda skaut íþróttaálfurinn upp kollinum í fyrravetur og hafði heilmikil áhrif á umræðuna. En umræðan hefur einnig snúist um vindinn og gerðar hafa verið einfaldar tilraunir s.s. að láta hluti fjúka, búa til fallhlífar, láta vindinn feykja okkur og hvaðan kemur (úr hvaða átt) kemur vindurinn. Stundum höfum við notað grænfánann í þessu samhengi þ.e. við auðveldlega séð á honum hvenær það er mikill kraftur/orka í vindinum og hvenær er logn.
Við höfum rætt um hvaðan við fáum rafmagn og hita til að lýsa og hita húsin okkar og reynt að ímynda okkur hvernig var í gamla daga þegar hvorki var rafmagn né heitt vatn.